Tækifæri í stað takmarkana
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra heitir í dag Gló stuðningsfélag. Samhliða nýju nafni hefur einnig verið gefið út nýtt myndmerki og ný ásýnd sem ætlað er að ná betur utan um núverandi starfsemi og gildi félagsins.


mörkun
grafísk hönnun
textasmíði
almannatengsl
vefhönnun
birtingar
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra var upphaflega stofnað árið 1952 í kjölfar þess að lömunarveiki hafði lagst af fullum þunga á fjölmörg börn og ungmenni á Íslandi. Sjúkdómurinn hafði veruleg áhrif á hreyfifærni og starfsorku, en á þeim tíma voru lítil úrræði til staðar þegar kom að endurhæfingu og hjálpartæki fyrir fatlað fólk voru af skornum skammti.
Í gegnum áratugina hefur samfélagið breyst og starfsemi félagsins hefur þróast samhliða því. Nýju nafni og nýrri ásýnd er ætlað að ná betur utan um núverandi starfsemi félagsins og breyttar hugmyndir um fötlun.
Markhópur vörumerkisins eru börn og ungmenni með fötlun og fjölskyldur þeirra.
Nýja vörumerkinu er ætlað að höfða betur til markhópsins. Það er einfalt, vinalegt, hlýlegt, skemmtilegt og valdeflandi.
Myndmerki Gló er í líflegum fígúruformum sem vísar í stuðning, hreyfingu, umhyggju og gleði.
Í vörumerkinu er mikill fjöldi fallegra stuðningslita. Búbblurnar eru einkennandi form sem nýtist sem grafík í myndskreytingar. Búbblurnar eru mismunandi í laginu, sem er tilvísun í það að við erum ekki öll steypt í sama mót.





Markmið Gló er skýrt: Að börn og ungmenni fái tækifæri til að láta ljós sitt skína. Gló styður við tækifæri barna og ungmenna til að eiga aðild að tómstundum og menningu, lifa öruggu og heilbrigðu lífi og rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Félagið starfrækir meðal annars snemmtæka íhlutun og endurhæfingarþjónustu á Æfingastöðinni og býður upp á sumarbúðir og margvísleg tómstundatækifæri á vegum Reykjadals.
Enn fremur vinnur félagið að því að efla skapa og miðla margvíslegri þekkingu og þjónustu sem styður við tækifæri í stað takmarkana.





